Rösklega 37% vilja óbreytt fyrirkomulag á flugeldasölu og er það mun lægra hlutfall en fyrir ári síðan, þegar rösklega 45% vildu óbreytta flugeldasölu. Þetta er þó enn stærsti hópurinn. Næstum 32% vilja einungis selja til aðila sem eru með flugeldasýningar og næstum 23% vilja að einstaklingar megi kaupa ákveðið magn flugelda. Heldur fleiri vilja alfarið banna flugelda nú en fyrir ári síðan eða rúmlega 8% núna en næstum 7% í fyrra.
Karlar eru miklu hlynntari óbreyttu fyrirkomulagi en konur en rösklega 45% karla vilja óbreytt fyrirkomulag en tæplega 39% kvenna. Einnig er mikill munur eftir menntunarhópum, þannig vill hátt í helmingur þeirra sem eru með grunnskólapróf óbreytt fyrirkomulag en 31,5% þeirra sem hafa háskólapróf.
Athyglisvert er að skoða fyrirkomulag flugeldasölu eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk kýs. Rösklega 73% þeirra sem kjósa Flokk fólksins vilja óbreytt fyrirkomulag flugeldasölu en tæplega 16% kjósenda VG. Milli 24-26% kjósenda Pírata og Samfylkingarinnar vilja óbreytt fyrirkomulag en 34% kjósenda Viðreisnar og 48-52% kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Miðflokksins. Hæst hlutfall kjósenda Samfylkingarinnar vill banna flugelda eða tæplega 19%.
Svarendur voru 914 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu, 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 20. desember 2019.