RÖSKLEGA FJÓRÐUNGUR ÁNÆGÐUR MEÐ NÝJA RÍKISSTJÓRN

Heim / Fréttir / RÖSKLEGA FJÓRÐUNGUR ÁNÆGÐUR MEÐ NÝJA RÍKISSTJÓRN

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar nýtur lítillar ánægju hjá landanum, einungis rösklega fjórðungur er ánægður með nýja ríkisstjórn en rösklega 47% eru óánægð.

Karlar eru mun ánægðari með nýju ríkisstjórnina en konur, rösklega 30% karla en 20% kvenna. Eftir því sem tekjur manna aukast því ánægðari eru þeir með ríkisstjórnina, þannig eru rösklega 18% þeirra sem hafa lægstu tekjurnar ánægð með nýja ríkisstjórn en tæplega 32% þeirra sem hæstu tekjurnar hafa. Kjósendur flokkanna sem standa að nýrri ríkisstjórn eru ánægðari en kjósendur annarra flokka. Á bilinu 77-79% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eru ánægð með nýja ríkisstjórn en einungis tæplega 31% kjósenda Bjartrar framtíðar. Af kjósendum stjórnarandstöðuflokkanna eru Framsóknarmenn ánægðastir með nýja ríkisstjórn, eða 13% en um eða innan við 1% kjósenda Pírata, Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Svarendur voru 810 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12.-23. janúar 2017.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir