Þrátt fyrir dalandi fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs segjast lang flestir vilja Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra. Vinsældir hennar ná mun lengra yfir flokkspólitískar línur heldur en vinsældir formanna annarra flokka. 36% aðspurðrar sögðust helst vilja Katrínu sem næsta forsætisráðherra og vekur þar sérstaka athygli að rúmlega 30% kjósenda Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks myndu helst vilja hana sem næsta forsætisráðherra. Enn hærra hlutfall kjósenda Framsóknarflokksins myndu helst vilja hana áfram í stóli forsætisráðherra eða rúmlega 36%.
13,3% aðspurðra segist vilja Bjarna Benedikstson helst sem næsta forsætisráðherra og 10,1% Sigurð Inga Jóhannsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var nefnd af 8,8% svarenda en aðrir leiðtogar voru nefndir sjaldnar.
Ítarlegri niðurstöður má sjá í pdf skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 6.076 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 22. september 2021.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.