Flestir telja Kristrúnu besta í stóli forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra

Heim / Fréttir / Flestir telja Kristrúnu besta í stóli forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra

Það styttist í kosningar og um leið í myndun nýrrar ríkisstjórnar. Spenningurinn í þjóðfélaginu er orðinn áþreifanlegur og víða rætt um hverjir komi til með að setjast í ráðherrastóla eftir að talið verður upp úr kjörkössunum. Maskínu lék forvitni á að vita hvern almenningur vildi helst sjá annars vegar sem næsta forsætisráherra og hins vegar sem næsta fjármála- og efnahagsráðherra. Niðurstöðurnar sýndu að flestir aðspurðra telja Kristrúnu Frostadóttur best til þess fallna að gegna embætti forsætisráðaherra og fjármála- og efnahagsráðherra. 27% vilja sjá Kristrúnu sem næsta forsætisráðherra og 37% vilja sjá hana sem næsta fjármála- og efnahagsráðherra.

Maskína spurði síðast í október um hver væri best til þess fallinn og verða næsta forsætisráðherra og þegar þær niðurstöður eru bornar saman við nýjustu könnun sést að Þorgerður Katrín, sem næst flestir vilja fá sem næsta forsætisráðherra, hefur bætt við sig 10 prósentustigum á milli mælinga. En nú segjast 21% hana besta forsætisráðherrann að sínu mati.

Á myndinni hér að neðan er hægt að skoða þróun á þessum tveimur mælingum og flakka á milli niðurstaðna um forsætisráðherra og fjáramála- og efnahagsráðherra.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.454, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar. Könnunin fór fram dagana 15. til 20. nóvember 2024.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Í könnunum Maskínu er þess gætt sérstaklega að úrtök endurspegli fjölbreytileika samfélagsins – svo sem hvað varðar aldursdreifingu, búsetu og menntunarstig. Upplýsingar um dreifingu svarenda eftir ólíkum hópum eru birtar með niðurstöðum hverju sinni svo fjölmiðlar og aðrir notendur geti lagt sjálfstætt mat á gæði mælinganna og hvaða viðhorf þær endurspegla.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir