Aðeins tæplega 8% Íslendinga á aldrinum 18-75 ára telja að hryðjuverk verði framin á Íslandi, en 76-77% telja það ólíklegt. Þeir yngstu og elstu telja það líklegra en þeir sem eru „miðaldra“. Með auknum tekjum og lengri skólagöngu telur fólk ólíklegra að hryðjuverk verði framin hér á landi. Þá er allathyglisvert að hér finnst ekki munur á mati kjósenda flokkanna á hryðjuverkaógninni. Síðan kemur í ljós að því oftar sem fólk hugsar um að hryðjuverk séu framin á Íslandi (seinni spurningin) þeim mun líklegra telur það að þau verði framin hér.
Obbi landsmanna (76-77%) hugsar sjaldan eða aldrei um að hryðjuverk verði framin á Íslandi, en aðeins um 4% hugsa um það oft. Konur hugsa örlítið oftar um hryðjuverk en karlar og þeir yngstu oftar en eldri. Og eins og í fyrri spurningunni fækkar hugsunum fólks um hryðjuverk með auknum tekjum og lengri skólagöngu. Þá kemur í ljós að kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hugsa oftar um að hryðjuverk verði framin á Íslandi en kjósendur annarra flokka.
Svarendur þessarar könnunar, 877 manns, eru úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 10. til 22. mars 2017.