Um 32% Íslendinga eru hlynnt því að leyfa sölu léttvíns í matvöruverslunum en meirihluti, eða slétt 58% eru því andvíg. Andstaða við sölu léttvíns í matvöruverslunum hefur aukist frá því í byrjun febrúar 2016 þegar hátt í 35% voru því hlynnt og um 52% andvíg.
Lítið fleiri eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum, eða á bilinu 33%-34%, en meirihluti er einnig andvígur hér eða rúmlega 56%. Andstaðan hefur einnig aukist hér, því í byrjun febrúar 2016 voru rösklega á bilinu 37%-38% hlynnt sölu bjórs í matvöruverslunum og á milli 50%-51% andvíg.
Yfirgnæfandi meirihluti almennings er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða hátt í 74% svarenda.
Þegar bakgrunnsbreytur eru skoðaðar þá sést að andstaða við sölu bjórs í matvöruverslunum eykst með hærri aldri, þannig eru um 60% þeirra sem eru yngri en 25 ára hlynnt sölunni en aðeins um 19% þeirra sem eru 55 ára og eldri. Þá er andstaðan meiri utan höfuðborgarsvæðisins. Athygli vekur að sá hópur sem er með lægstar fjölskyldutekjur er mest hlynntur því að leyfa sölu bjórs í matvöruverslunum, eða á milli 48% og 49% á meðan þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur voru á bilinu 26-33% hlynntir. Nærrum helmingur kjósenda Bjartrar framtíðar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum eða á bilinu 42-46% á meðan kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri græna sýna mestu andstöðu, eða á bilinu 70-75%. Sami marktæki munur var á milli hópa þegar að kemur að sölu léttvíns í mattvöruverslunum.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar úr öllum spurningunum þremur kemur í ljós að rúmlega 66,3% eru ekki hlynntir (þeir sem eru andvígir eða í meðallagi) sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum.
Svarendur, 845 manns, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 21.-27. febrúar 2017.