Vel stæðir miðaldra feður fara oftar á leiki í Pepsi-deildum en aðrir Íslendingar

Heim / Fréttir / Vel stæðir miðaldra feður fara oftar á leiki í Pepsi-deildum en aðrir Íslendingar

Naumlega 17% Íslendinga fylgdust með pepsi-deild kvenna á nýliðnu sumri og um 26% með pepsi-deild karla. Aðeins tæplega 4% svarenda fóru á leik í pepsi-deild kvenna og á bilinu 10-11% á leik í pepsi-deild karla.

Að meðaltali fóru þeir sem mættu á leiki í pepsi-deild kvenna á 3,35 leiki en þeir sem fóru á leiki í pepsi-deild karla mættu að meðaltali á 5,97 leiki.

 

Áhugi á íslenskri knattspyrnu er algengari meðal karla, óháð því hvort um kvenna- eða karlaknattspyrnu er að ræða. Mun hærra hlutfall karla (23%) en kvenna (10%) fylgist með pepsi-deild kvenna og það sama á við um pepsi-deild karla, en 37% karla og 14% kvenna fylgjast með henni.

Aldurshópurinn 40-49 ára fylgist frekar með báðum deildum, er líklegri til að fara á fótboltaleiki beggja kynja og fer að meðaltali á flesta leiki. Það sama er að segja um þá sem hafa hæstar heimilistekjur, þ.e. 1.200 þúsund eða hærri.

Íbúar Reykjavíkur eru líklegri en aðrir til að mæta á leiki í pepsi-deild karla þó þeir mæti ekki oftar á leiki. Þeir sem búa á heimili þar sem börn búa fara jafnframt mun oftar en aðrir á leiki í pepsi-deild karla og karlar fara oftar en konur á leiki í pepsi-deild karla. Ekki er marktækur munur eftir búsetu, heimilisgerð og kyni á mætingu á leiki í pepsi-deild kvenna.

Þeir sem fylgjast með pepsi-deildum en fara ekki á leiki segja ástæður fyrir því helst vera tímaskort, að liðið þeirra sé ekki í efstu deild, miðaverð, veðurfar eða búsetu.

Svarendur voru 793 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 28. september – 10. október 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir