Sex af hverjum tíu vilja mörk á setu forseta Íslands

Heim / Fréttir / Sex af hverjum tíu vilja mörk á setu forseta Íslands

Hátt í sex af hverjum tíu Íslendingum eru hlynntir þeirri hugmynd að í stjórnarskrá verði sett mörk á hversu mörg kjörtímabil forseti Íslands má sitja. Slétt 17% er andvíg þessari hugmynd og fjórðungur er í meðallagi hlynntur eða andvígur.
Meðaltalið á fimm punkta kvarða er um 3,7, sem fer nálægt því að Íslendingar eru fremur hlynntir þessari hugmynd (gildið 4 stendur fyrir „fremur hlynnt(ur)“).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með hliðsjón af bakgrunni svarenda má sjá að konur eru hlynntari því en karlar að mörk verði sett á fjölda kjörtímabila sem forseti Íslands má sitja og stuðningur við þessa hugmynd er meiri hjá háskólamenntuðum en meðal þeirra sem hafa annars konar menntun. Þá er töluverður munur eftir því hvaða flokk fólk myndi kjósa í dag. Þar má sjá að kjósendur Framsóknarflokksins eru mest andvígir þessari hugmynd og er það eini bakgrunnshópurinn þar sem fleiri eru andvígir hugmyndinni en hlynntir. Kjósendur Samfylkingar, Pírata og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru nokkuð hlynntari þessari hugmynd en kjósendur annarra flokka.

Á bilinu 44-45% vilja tvö kjörtímabil

Algengast var að svarendur sem vildu takmörkun nefndu að forseti Íslands ætti að mega sitja tvö kjörtímabil, en á bilinu 44-45% nefndu þann fjölda. Þá nefndu tæp 37% svarenda þrjú kjörtímabil, en alls nefndu ríflega 82% svarenda þrjú kjörtímabil eða færri. Meðaltalið og miðgildið var um 3 kjörtímabil.
Skýrari mynd af afstöðu allra Íslendinga til fjölda kjörtímabila sem forseti Íslands ætti að mega sitja fæst með því að horfa einnig til þeirra sem ekki eru hlynntir því að setja mörk (sjá neðri töflu hér til hliðar). Þá sést að ríflegur fjórðungur svarenda vill setja mörk við tvö kjörtímabil og slétt 21% við þrjú kjörtímabil, eða alls um 47% Íslendinga sem vilja setja mörk um þrjú eða færri kjörtímabil.
Karlar nefndu að jafnaði fleiri kjörtímabil en konur og nokkur munur var á mati fólks á fjölda kjörtímabila eftir stjórnmálaskoðun, þar sem kjósendur Framsóknar-flokksins nefndu hvað flest kjörtímabil á meðan kjósendur Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingar nefndu hvað fæst kjörtímabil.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir