Rúmlega 90% íslendinga finnst Donald Trump hafa staðið sig illa

Heim / Fréttir / Rúmlega 90% íslendinga finnst Donald Trump hafa staðið sig illa

Tæplega 74% Íslendinga finnst Donald Trump hafa staðið sig mjög illa sem forseti Bandaríkjanna og 16-17% til viðbótar að hann hafi staðið sig fremur illa (samtals 90,2% illa). Aðeins 4% finnst hann hafa staðið sig vel og tæplega 6% í meðallagi vel eða illa.

Körlum finnst Donald Trump ekki hafa staðið sig eins illa sem forseti Bandaríkjanna og konum finnst. Þannig telja rúmlega 15% karla að hann hafi staðið sig vel eða í meðallagi vel eða illa, samanborið við rúmlega 4% kvenna. Þá finnst Reykvíkingum Donald Trump hafa staðið sig verr en þeim sem búa annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Hvorki tekjur né hjúskaparstaða skipta máli þegar kemur að afstöðu fólks til frammistöðu Donald Trump sem forseta, en hins vegar skiptir menntun máli. Þannig finnst þeim sem hafa háskólapróf Donald Trump hafa staðið sig verr en þeim sem hafa grunnskólapróf eða framhaldsmenntun/iðnmenntun.

Að lokum eru kjósendur þriggja flokka ánægðari með frammistöðu Donald Trump, en kjósendur annarra flokka. Á bilinu 22-23% kjósenda Sjálfstæðismanna, um 21% kjósenda Miðflokksins og á bilinu 17-18% kjósenda Flokks fólksins, segja Donald Trump hafa staðið sig vel eða í meðallagi vel eða illa sem forseti Bandaríkjanna.

Hátt í 28% Íslendinga finnst Vladimir Putin hafa staðið sig mjög illa sem forseti Rússlands og rúmlega 26% til viðbótar að hann hafi staðið sig fremur illa (samtals 54,0% illa). Slétt 46% telja að hann hafi staðið sig vel eða í meðallagi vel eða illa. Þeim sem finnst Vladimir Putin hafa staðið sig vel eða í meðallagi vel eða illa eru líklegri til að finnast Donald Trump einnig hafa staðið sig vel eða í meðallagi vel eða illa.

Körlum finnst Vladimir Putin hafa staðið sig mun betur sem forseti Rússlands en konum. Á bilinu 57-58% karla telja hann hafa staðið sig vel eða í meðallagi vel eða illa, samanborið við 33-34% kvenna. Eldri hópar telja að Vladimir Putin hafi staðið sig betur en þeir yngri, sem og Austfirðingum, sem og Vestlendingum og Vestfirðingum. Þá finnst hlutfallslega fleiri Reykvíkingum hann hafa staðið sig illa heldur en íbúar annarra landshluta. Tekjur og hjúskaparstaða skipta ekki máli þegar kemur á afstöðu fólks til frammistöðu Vladimar Putin sem forseta Rússland. Hins vegar telja þeir sem hafa háskólapróf Vladimir Putin hafa staðið sig verr en þeir sem hafa grunnskólapróf eða framhaldsskólapróf/iðnmenntun.

Að lokum er munur á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það kýs. Þannig eru kjósendur Flokks fólksins og Miðflokksins mun ánægðari með frammistöðu Vladimir Putin sem forseta Rússlands en kjósendur annarra flokka.

Svarendur voru 1991 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 18. janúar – 5. febrúar 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

 

Aðrar fréttir