MEST ÁNÆGJA OG ÓÁNÆGJA MEÐ FRAMMISTÖÐU BJARNA BENEDIKTSSONAR

Heim / Fréttir / MEST ÁNÆGJA OG ÓÁNÆGJA MEÐ FRAMMISTÖÐU BJARNA BENEDIKTSSONAR

Við þinglok var spurt út í ánægju með frammistöðu ráðherranna og þekkingu á störfum þeirra. Mikil óánægja var með frammistöðu þeirra almennt en sammerkt var með öllum ráðherrunum að fleiri voru óánægðir með frammistöðu þeirra en ánægðir.

Mest ánægja mældist með frammistöðu Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, en mesta óánægjan einnig. Slétt 28% Íslendinga voru ánægð með frammistöðu Bjarna en mun fleiri, eða rúmlega 50%, voru óánægð með frammistöðu hans. Um tveir þriðju hlutar stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru ánægð með frammistöðu Bjarna en aðeins um 3% þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina.

Á eftir Bjarna eru Íslendingar ánægðastir með frammistöðu Bjartar Ólafsdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarssonar og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur en um 23% landsmanna voru ánægð með frammistöðu þeirra. Á hæla þeirra fylgja svo tveir ráðherrar Viðreisnar þau Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en 19-21% voru ánægð með störf þeirra.

Fæstir eru ánægðir með störf Jóns Gunnarssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, eða einungis 9%. Milli 11 og 13% eru ánægð með frammistöðu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra, Óttars Proppé heilbrigðisráðherra og Kristjáns Þórs Júlíussonar mentamálaráðherra, en ánægjan er minnst með frammistöðu þessara fimm ráðherra.

Á milli 64% og 65% Íslendinga styðja ekki núverandi ríkisstjórn Íslands en á bilinu 35% til 36% styðja hana. Stuðningurinn er mestur í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar en þar er hann tæplega 46%. Tekjuhærra fólk er líklegra til að styðja ríkisstjórnina en tekjulægri einstaklingar. Nær allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar styðja ríkisstjórnina en aðeins ríflega 40% kjósenda Bjartrar framtíðar styðja hana. Einungis 3% til 15% kjósenda annarra flokka styðja ríkisstjórnina.

Svarendur voru 778 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 1. til 13. júní 2017.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir