MEIRA EN HELMINGUR HLAKKAR TIL JÓLANNA

Heim / Fréttir / MEIRA EN HELMINGUR HLAKKAR TIL JÓLANNA

Meira en helmingur Íslendinga á aldrinum 18-75 ára, eða slétt 55%, hlakkar mikið til jólanna samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Á bilinu 14-15% hlakka lítið eða ekkert til jólanna, en þar af 3-4% mjög lítið eða ekkert. Konur hlakka meira til jólanna en karlar og tekjuhærri meira en tekjulægri, svo dæmi séu tekin af tilhlökkun fólks skipt eftir bakgrunni þess.

Maskína spurði einnig um kvíða fyrir jólin. Rúmur helmingur Íslendinga kvíðir jólum mjög lítið eða ekkert, en 7-8% kvíða þeim mikið. Þeir sem eru 18-24 ára kvíða jólum mest en ekki er marktækur munur á kvíða kynjanna.

Þá var spurt um sókn landsmanna á jólahlaðborð og jólatónleika á aðventunni, sem og um boð um jólin. Í ljós kom að rúmur helmingur (53,6%) Íslendinga fer á hlaðborð fyrir jólin, slétt 31% fer á jólatónleika og um 79% (78,9%) fara í jólaboð yfir hátíðarnar. Kjósendur Bjartrar framtíðar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fara síður en aðrir kjósendur á jólahlaðborð en eru aftur á móti líklegri til að fara á jólatónleika. Flestir kjósendur allra flokka ætla sér í jólaboð.

Könnunin var gerð af Maskínu í fyrrihluta desember 2015 meðal rúmlega 800 Íslendinga af báðum kynjum af öllu landinu á aldrinum 18-75 ára. Svarendur eru í Þjóðgátt Maskínu sem er viðhorfahópur Íslendinga sem safnað var með slembiúrtaki úr Þjóðskrá.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir