Hörð barátta um Eurovision framlag Íslendinga 2019

Heim / Fréttir / Hörð barátta um Eurovision framlag Íslendinga 2019

Frá 63% til 65% Íslendinga ætla að fylgjast með úrslitum Söngvakeppninnar á morgun, laugardaginn 2. mars.

Rúmlega 37% þeirra sem ætla að fylgjast með Söngvakeppninni munu líklegast kjósa lag Hatara, „Hatrið mun sigra“. Milli 23% og 24% ætla að kjósa lag Friðriks Ómars, „Hvað ef ég get ekki elskað“ og stefnir því í það að baráttan verði á milli Hatara og Friðriks Ómars. Rúmlega 11% ætla að kjósa lag Kristinu Bærendsen „Mama Said“. Tæplega 21% svarenda hafa ekki myndað sér skoðun á því hvaða lag þeir muni koma til með að kjósa.

Karlar (42,9%) eru töluvert líklegri en konur (31,8%) til þess að kjósa Hatara. Konur eru líklegri til þess að kjósa Friðrik Ómar (32,3%) en karlar (14,1%). Þá er mikill munur á því hvaða aldurshópar koma til með að kjósa Hatara. Á bilinu 10% og 11% þeirra sem eru 60 ára eða eldri ætla að kjósa Hatara samanborið við um 56% Íslendinga á aldrinum 40-49 ára. Íslendingar 60 ára og eldri eru líklegastir til þess að kjósa Friðrik Ómar (32,7%) og fólk á aldrinum 40 til 49 ára ólíklegast (19,4%).

Aðspurðir hvaða lag Íslendingar telji að muni sigra í Söngvakeppninni, segir nær helmingur að lag Hatara komi til með að bera sigur úr býtum. Á eftir Hatara kemur Friðrik Ómar, en á bilinu 24% og 25% telja að hann sigri í keppninni annað kvöld. Tæplega 62% Íslendinga sem ætla að kjósa Hatara telja að lagið sigri í keppninni en rúmlega 51% þeirra sem ætla að kjósa Friðrik Ómar telja að hann komi til með að sigra.

Tekið skal fram að enginn yngri en 18 ára tók þátt í könnuninni.

Svarendur voru 704 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 22. febrúar-1. mars 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir