Fleiri vilja aðskilja trú og skólastarf en ekki

Heim / Fréttir / Fleiri vilja aðskilja trú og skólastarf en ekki

Rúmlega 45% Íslendinga telja að kristnar trúarathafnir, bænir eða guðsorð eigi ekki að vera liður í starfi opinberra leik- og grunnskóla (eru ósammála að trú eigi að vera liður í skólastarfi), en á milli 35% og 36% telja að svo eigi að vera (eru sammála). Sambærileg könnun var gerð árið 2015 fyrir Siðmennt. Um 10 prósentustigum fleiri Íslendingar eru andvígir nú en þá. Þó er ekki marktækur munur á meðaltali á kvarðanum 1-5 frá síðustu mælingu.

Töluverður munur er á viðhorfi til kristinna trúarathafna í skólum eftir aldri. Með hækkandi aldri eru Íslendingar líklegri til þess að vera sammála því að kristnar trúarathafnir eigi að vera liður í skólastarfi. Fólk á aldrinum 18-29 ára en líklegast til þess að vera andvígt, eða tæplega 66% og Íslendingar 60 ára og eldri eru líklegastir til þess að vera hlynntir, eða um 60%.

Reykvíkingar eru líklegastir til þess að vera andvígir kristilegum trúatathöfnum í skólastarfi en Sunnlendingar og Reyknesingar eru líklegastir til þess að vera hlynntir því. Töluverð breyting hefur orðið á viðhorfi á meðal Austfirðinga á þessum þremur árum, því um 10% þeirra voru andvíg trú í skólastarfi árið 2015, en rúmlega 33% nú.

 

Háskólamenntaðir Íslendingar eru töluvert líklegri til þess að vera andvígir trú í skólastarfi eða rúmlega 55%, samanborið við rúmlega 32% þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi og tæplega 41% þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun.

Íslendingar sem búa á heimili með 1-2 börn eru líklegastir til þess að vera andvígir því að kristnar trúarathafnir eigi að vera liður í skólastarfi, eða á milli 52% og 53%. Heimili með tveimur eða fleiri fullorðnum og engum börnum eru hlynntastir því, eða 41%.

Svarendur voru 854 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 20. nóvember – 1. desember 2018.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir